Lög USAH
96. ársþing USAH, haldið á Blönduósi 3. mars 2013, samþykkir að lög sambandsins verði svohljóðandi:
Lög USAH
1.gr.
Sambandið heitir Ungmennasamband Austur-Húnvetninga, skammstafað USAH. Sambandssvæðið er Austur-Húnavatnssýsla. Heimili þess og varnarþing er á Blönduósi.
2.gr.
Hlutverk USAH er að stjórna sameiginlegum íþrótta- og æskulýðsmálum aðildarfélaganna. Sambandið annast samstarf um íþrótta- og æskulýðsmál við sveitar- og bæjarstjórnir og aðra opinbera aðila innan héraðs, varðveitir og skiptir milli félaganna því fé sem til þess hefur verið veitt í því skyni, og aðstoða við skipulag, undirbúning og framkvæmd íþróttamóta og æskulýðsviðburða í héraðinu. USAH hefur frumkvæði um eflingu íþrótta- og æskulýðsstarfs innan héraðs, staðfestir lög/lagabreytingar aðildarfélaga, heldur utan um staðfest lög félaga, – og fylgist með því að starfsemi aðildarfélaga fari fram skv. gildandi lögum þeirra og íþróttahreyfingarinnar í heild. Í því skyni skal USAH hafa fullan aðgang að bókhaldi og fylgiskjölum aðildarfélaga sinna og ef ástæða þykir til getur stjórn USAH tilnefnt sérstakan skoðunarmann reikninga fyrir aðildarfélag og fyrirskipað ítarlega rannsókn á fjárreiðum viðkomandi félags.
Vanræki aðildarfélag að halda aðalfund á tilsettum tíma skal stjórn sambandsins, ef þörf krefur, boða til fundarins og sjá um framkvæmd hans.
3.gr.
Rétt til aðildar að sambandinu hafa öll ungmenna- og íþróttafélög á svæðinu enda séu lög þeirra í samræmi við lög UMFÍ og ÍSÍ.
4.gr.
Óski félag inngöngu í sambandið skal senda skriflega umsókn þess efnis til stjórnar USAH ásamt lögum félagsins og félagaskrá minnst 20 meðlima. Stjórn USAH sannreynir að starfsemi og lög viðkomandi félags samræmist lögum og stefnum ÍSÍ og UMFÍ. Eftir að umsókn berst staðfestir næsta ársþing inngöngu nýrra aðildarfélaga. Úrsögn aðildarfélags getur aðeins farið fram á ársþingi. Þeim aðildarfélögum sem eigi hafa tvö ár samfellt gert skil á árgjöldum eða ársskýrslu, má víkja úr sambandinu, enn fremur þeim sem að öðru leyti gerast brotleg gagnvart lögum þess. Ákveði ársþing USAH að víkja félagi úr sambandinu er USAH skylt að tilkynna það til ÍSÍ og viðkomandi sérsambands.
5.gr.
Ársþing USAH er æðsta vald sambandsins og skal það haldið árlega í febrúar eða mars. Stjórn USAH annast undirbúning og framkvæmd þess. Þingið skal boðað með minnst eins mánaðar fyrirvara. Sambandsfélögin skulu hafa haldið aðalfund fyrir síðast liðið starfsár og skilað inn ársskýrslu, reikningum og félagatali til stjórnar sambandsins í síðasta lagi 14 dögum fyrir ársþing sambandsins ár hvert. Skriflegt fundarboð með dagskrá og upplýsingum um tillögur og mál sem leggja á fyrir ársþing skal senda aðildarfélögum sem rétt eiga til þingsetu með eigi minna en tveggja vikna fyrirvara. Við atkvæðagreiðslu almennra mála og í kosningum ræður einfaldur meirihluti en til lagabreytinga þarf 2/3 hluta atkvæða. Félögin kjósa á aðalfundi fulltrúa til setu á ársþingi USAH.
Félögin kjósa 2 fulltrúa fyrir fyrstu 75 félaga eða færri,
3 76-125
4 126-175
5 176-225
6 226 og fleiri
Kjósa skal eftir því félagatali sem gildir fyrir nýhafið starfsár.
6.gr.
Ársþing úrskurðar reikninga sambandsins, er skulu miðast við almanaksárið. Þingið ræðir og gerir tillögur um starfsemi sambandsins og ákveður árgjald af félögunum. Þá kýs þingið stjórn sambandsins, skoðunarmenn reikninga og fastanefndir. Ef deilur rísa innan sambandsins ber ársþingi að úrskurða um þær.
7.gr.
Á ársþingi hafa aðeins kjörnir fulltrúar atkvæðisrétt. Auk þeirra eiga rétt til þingsetu og hafa þar málfrelsi og tillögurétt:
a) stjórn og varastjórn
b) skoðunarmaður/menn
c) fulltrúar ÍSI og UMFÍ
d) meðlimir fastanefnda
e) Auk þess getur stjórnin boðið öðrum aðilum þingsetu, ef hún telur ástæðu til. Aðeins sá sem er í félagi innan sambandsins er kjörgengur fulltrúi þess á ársþingi. Hver þingfulltrúi hefur eitt atkvæði. Allir þingfulltrúar skulu hafa kjörbréf.
8.gr.
Kjörnefnd sambandsins skal starfa fyrir þingið og á þinginu. Í henni eiga sæti formaður USAH og formenn aðildarfélaganna eða varamenn þeirra. Hlutverk kjörnefndar er að gera tillögur um menn í stjórn, þingnefndir og fastanefndir sambandsins.
9.gr.
Störf ársþings eru þessi:
1.Þingsetning
2. Kosning fyrsta þingforseta sem tekur þegar til starfa.
3. Kosning þriggja manna kjörbréfanefndar og tekur hún þegar til starfa.
4. Kosning annars þingforseta og fyrsta og annars þingritara.
5. Lögð fram skýrsla stjórnar og endurskoðaðir reikningar.
6. Álit kjörbréfanefndar.
7. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga. Reikningar bornir upp til samþykktar.
8. Ávörp gesta.
9. Skipun þingnefnda, tillögur lagðar fyrir nefndir. Nefndir taka til starfa.
10. Hvatningarverðlaun USAH afhent.
11. Tillögur og nefndarálit tekin til afgreiðslu.
12. Önnur mál.
13. Kosningar. Álit kjörnefndar.
a) Kosinn formaður
b) Kosið í stjórn og varastjórn
c) Kosinn skoðunarmaður reikninga til tveggja ára og varamaður hans.
d) Kosið í fastanefndir.
e) Kosinn fulltrúi á Íþróttaþing ÍSÍ.
f) Kosið í ritnefnd Húnavöku skv.13.gr. laga USAH
14. Fundargerð þingsins borin upp til samþykktar.
15. Þingslit.
Ef lægsta atkvæðatala til að ná kosningu fellur á fleiri en tilskilið er skal kjósa um þá á ný í bundinni kosningu. Verði þeir enn jafnir ræður hlutkesti.
10.gr.
Aukaþing má halda ef nauðsyn krefur eða helmingur aðildarfélaga óskar þess. Allur boðunar og tilkynningarfrestur til aukaþings má vera helmingi styttri en til reglulegs þings. Fulltrúar á aukaþingi eru þeir sömu og voru á næsta reglulega þingi á undan og gilda sömu kjörbréf. Þó má kjósa að nýju í stað fulltrúa sem er látinn, veikur eða forfallaður á annan hátt. Á aukaþingi má ekki gera laga- eða leikreglnabreytingar og ekki kjósa stjórn, nema bráðabirgðastjórn ef meirihluti kjörinnar aðalstjórnar hefur sagt af sér eða hætt störfum af öðrum orsökum, eða stjórnin að eigin dómi orðin óstarfhæf. Að öðru leyti gilda um það sömu reglur og um reglulegt ársþing.
11.gr.
Stjórn sambandsins skal skipuð fimm mönnum, formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera og meðstjórnanda. Stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára í senn þannig að ritari og gjaldkeri séu kosnir annað árið en formaður, varaformaður og meðstjórnandi hitt árið. Ekki mega vera fleiri en tveir aðalstjórnarmenn úr sama félagi. Á þinginu skal kjósa fimm varamenn til eins árs: fyrsta, annan og þriðja o.s.frv. Látist stjórnarmaður eða segi af sér á fyrra ári kjörtímabilsins þá skal á næsta héraðsþingi kjósa mann í hans stað til eins árs. Skoðunarmenn reikninga sambandsins skulu vera tveir og skulu þeir vera kosnir hvor sitt árið. Það sama gildir um varaendurskoðendur.
12.gr.
Stjórnin fer með framkvæmdavald, ber henni að vinna eins og kostur er eftir samþykktum ársþings.
13.gr.
Ungmennasambandið gefur út ársritið Húnavöku. Í ritnefnd sitja ritstjóri og fimm ritnefndarmenn og eru þeir kosnir á ársþingi til eins árs í senn.
14.gr.
Fáni sambandsins er ísbjörn með tveimur húnum á ísjaka. Í bakgrunni fljóta tveir borgarísjakar hvor sínu megin við ísbjörninn og geislum rísandi sólar stafar frá hafsbrún að baki ísbirninum.
15.gr.
Tillögum til lagabreytinga skal skilað til stjórnar minnst 30 dögum fyrir ársþing og skal þeirra getið í þingboði.
16.gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi, með fyrirvara um staðfestingu ÍSÍ og UMFÍ. Um leið falla úr gildi eldri lög USAH.